Spurt og svarað

Úr Hjálparsíður dreifðs prófarkarlesturs
Jump to navigation Jump to search


Hver stendur á bak við Rafbókavefinn?

Óli Gneisti Sóleyjarson sett Rafbókavefinn af stað sem meistaraverkefni í hagnýtri menningarmiðlun árið 2011 og hefur haldið utan um hann síðan. Ótalmargir hafa síðan stutt verkið með einum eða öðrum hætti.

Hvaðan kemur efnið?

Netútgáfan

Fyrsta efnið á Rafbókavefnum var fengið af Netútgáfunni. Sá vefur var að mestu verk Sæmundar Bjarnasonar. Efnið á Netútgáfunni er á vefsíðuformi en hjá okkur er það fyrst og fremst sett upp á Rafbókaformunum epub (opna formið) og mobi (ætlað Amazon Kindle).

Bókaskönnun Rafbókavefsins

Þegar vefurinn var kominn af stað hafði Svavar Kjarrval samband. Hann hafði ásamt afa sínum búið til ótrúlega flottan bókaskanna. Rafbókavefurinn fékk bókaskannann að láni og notaði til að skanna inn ótal bækur, flestar sem komnar voru úr höfundarétti.

Bækur.is

Vefurinn Bækur.is er rekinn af Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Þar eru bækur sem safnið hefur skannað inn. Flestar eru þær utan höfundaréttarverndar og höfum við fengið ýmsar bækur þaðan sem síðan voru settar í dreifða próförk.

Internet Archive

Internet Archive er einhver merkilegasti vefur heims. Þar eru m.a. varðveitt afrit af vefsíðum en einnig hefur vefurinn staðið fyrir kerfisbundinni bókaskönnun. Þó slík skönnun hafi aldrei farið fram á Íslandi þá hafa íslenskar bækur verið skannaðar þar sem þær voru til. Það þýðir að vefurinn hefur t.d. óvenju stórt úrval af bókum Vestur-Íslendinga.

Stærsti vandinn við íslensku bækurnar hjá Internet Archive er að þær eru ekki vandlega skráðar. Þeir sem sáu um skráninguna höfðu að öllum líkindum enga kunnáttu í íslensku þannig að oft er erfitt að finna bækur þar eða fá yfirlit yfir úrvalið.

Bækur með leyfi höfundarétthafa

Í nokkrum tilfellum hafa höfundarétthafar gefið Rafbókavefnum leyfi til að skanna og/eða deila bókum.

Hvernig virkar höfundaréttur á bókum?

Á Íslandi eru bækur, eins og önnur höfundaverk, varðar í rétt rúm 70 ár eftir dauða höfundar. Ef höfundur lést árið 1950 þá falla verk hans úr vernd 1. janúar 2021. Í einhverjum tilfellum er þetta flóknara úrlausnarefni en við förum ekki nánar út í það hér.

Hvernig virkar ljóslestur?

Ljóslestur, á ensku kallað OCR (optical character recognition), er ferlið þar sem texti sem hefur verið myndaður eða skannaður er breytt í rafrænan texta sem er auðvelt að breyta og dreifa. Þar sem ljóslestur er aldrei fullkominn þarf mannsaugað alltaf að fara yfir niðurstöðuna.


Hvaða hugbúnað notið þið?

Hvaða ljóslestrarforriti mælið þið með?

Í dag notar Rafbókavefurinn Tesseract-OCR. Það er frjálst og opið ljóslestrarforrit sem er í dag (útgáfa 4) hérumbil jafn öflugt og rándýr hugbúnaður.

Hvaða forrit notið þið til að búa til rafbækur

Rafbækurnar okkar eru búnar til í forriti sem heitir Sigil. Sigil býr til ákaflega góðar epub skrár. Við notum síðan Calibre til þess að breyta epub í mobi. Í dag getur Calibre reyndar líka búið til rafbækur frá grunni.