Reglur fyrir prófarkarlestur

Úr Hjálparsíður dreifðs prófarkarlesturs
Jump to navigation Jump to search


Hér eru grunnreglur um yfirlestur.

Frumreglan

Ekki breyta því sem stendur á blaðsíðunni

Þegar mögulegt er þá er rétt að hafa textann eins nálægt hinum upprunalega texta og mögulegt er. Ef stafsetning er skringileg þá er rétt að halda sig við hana. Ef staðreyndavillur eru í upprunalega textanum þá eiga þar að standa óbreyttar.

Ef á að nútímavæða textann er betra að slíkt sé gert á kerfisbundinn hátt þegar yfirlestri er lokið heldur en að uppfræða alla prófarkalesarana um hvernig það eigi að fara fram.

Höfuð og fætur

Fjarlægja skal blaðsíðunúmer. Þar að auki eru oft upplýsingar efst og neðst á síðum (s.s. kaflaheiti, bókatitill o.m.fl.) sem á líka að fjarlægja.

Orði skipt milli blaðsíðna

Ef orði er skipt milli tveggja blaðsíðna þá skal setja bandstrikið innan [hornklofa]. Á næstu síðu skal bara skrifa orðið eins og það birtist.

Dæmi:

Þetta er síðasta setningin á blað[-]

Prentvillur

Í einstaka tilfelli má leiðrétta prentvillur. Það heyrir til algjöra undantekninga. Til þess að ákvarða slíkt verður prófarkalesari að vera vel að sér í stafsetningu ritsins sem hann er að fara yfir og þekkja muninn á sérvisku og villum. Ef einhver vafi er á hvort um prentvillur sé að ræða þá skal ekki breyta. Það má líka alltaf stjörnumerkja (*) vafaatriði.

Laga villur á fyrri síðum

Þegar þú velur bók til að fara yfir þá opnast verkefnasíðan. Ef þú hefur áður lesið yfir síður í því verkefni eru hlekkir á fyrri síður þar. Síður undir fyrirsögnunum "Lokið" og "Í vinnslu" eru enn opnar fyrir leiðréttingar. Þannig getur þú smellt á síðuhlekkina og opnað þær til þess að lagfæra mistök sem þú hefur gert.

Þú getur líka valið hlekkina "Myndir, síður, yfirlit og mismunur" og "Bara mínar síður" til þess að fá yfirlit yfir síður verkefnisins.

Línuskiptingar

Láttu allar línuskiptingar óbreyttar. Það eina sem við lögum er þegar orð er brotið á milli lína. Þá setjum við orðið allt í efri línuna en afgangurinn af seinni línunni verður áfram í þeirri línu. Annars skal ekki breyta línuskiptingu því allur yfirlestur er mun auðveldari þegar línurnar samsvara prentuðu síðunni.

Neðanmálsgreinar

Neðanmálsgreinarnar sjálfar eru markaðar innan [hornklofa] og hafðar neðst á síðunni. Fremst í neðanmálsgreininni er stjarna. Ef það eru fleiri en ein neðanmálsgrein á síðunni eru settar fleiri stjörnur í seinni neðanmálsgreinarnar, tvær ef það er neðanmálsgrein númer tvö og svo framvegis.

Tilvísunin í neðanmálsgrein er sömuleiðis merkt með stjörnu innan hornklofa[*].

[* Svona myndi neðanmálsgrein líta út]

Gæsalappir

Notaðu sömu tegund af gæsalöppum og eru í upprunalega textanum. Til þess að fá íslenskar gæsalappir er hægt að smella á þær í ramma neðst á síðunni. Þá birtast bæði fyrri og seinni gæsalappirnar saman þar sem bendillinn var í textaritlinum. Með því að velja texta í ritlinum er hægt að láta gæsalappirnar birtast utan um þann texta. Leggja skal áherslu á að breyta fyrri gæsalöppunum (niðri) í yfirlestri en það er hægt að skipta seinni gæsalöppunum (uppi) út í eftirvinnslu.

Í fellilista í neðsta rammanum á yfirlestrarsíðunni er hægt að inn «svona» tilvitnanamerki sem algeng eru í eldri bókum.

Ef tilvitnaður texti innan gæsalappa nær yfir fleiri en eina síðu þá á ekki að setja gæsalappir í lok síðunnar heldur leyfa þeim sem fer yfir þá síðu að sjá um það.

Bil á eftir punkti

Á eftir punkti kemur eitt bil.

Greinarmerki

Fjarlægðu aukabil sem koma á undan greinarmerkjum í texta þó bil sé í frumtexta. Þetta á þó ekki við um þankastrik (sem er lengri útgáfa af bandstriki)

Þankastrik og bandstrik

Ljóslestrarforrit rugla oft saman þankastrikum (löng) og bandstrikum (stutt). Þar sem þankastrik eru ekki á lyklaborði þá má skrifa tvö bandstrik í stað þankastriks --

Þrípunktar/úrfellingarpunktar (...)

Þegar margir punktar eru notaðir til þess merkja þar sem texti er felldur út úr tilvitnun eða sýnir hvernig setning fjarar út þá skal einungis nota þrjá punkta þó þeir hafi verið fleiri á síðunni.

Ef punktarnir eru notaðir þar sem felldur hefur út hluti orðs þá skulu punktarnir koma strax á eftir byrjun orðsins. Annars skal nota bil á undan og eftir þrípunktunum en þó ekki ef önnur greinarmerki eru á undan eða eftir.

Dæmi

Hvernig á ég að gera ...?

Það var ógurl...

Ugla sat á kvisti ... eitt, tvö, þrjú og það varst þú.

Úrfellingarmerki

Fjarlægið aukabil í orðum með úrfellingarmerki. Dæmi: D' artagnan verður D'artagnan.

Bil á milli orða og í lok línu

Ef aukabil eru á milli orða þá þarf ekki að fjarlægja þau. Sömuleiðis þarf ekki að setja bil í lok línu. Þetta er hvorutveggja lagað í eftirvinnslu. Línunúmer

Ef númer eru í upphafi línu, s.s. í ljóðum. Notaðu þrjú bil til að aðgreina númerin frá textanum. Þessi númer munu nýtast þeim sem nota textann í framtíðinni.

Ská- og breiðletrun

Þegar kemur að formötunarumferðum verða sett inn merki fyrir ská- og breiðletruð orð. Það er ekki ætlast til þess að þau séu sett inn í prófarkarlestrinum en ef það hefur verið gert skal ekki fjarlægja þau.

Leturstærð

Það þarf ekki að setja inn merki þegar leturstærð breytist. Það á líka við þegar fyrsti bókstafur í kafla er mun stærri en þeir sem á eftir koma.

Kaflar, efnisgreinar og meginmál

Leturgerðir fyrirsagna kafla, svosem kaflanúmer og kaflaheiti á ekki að kóða á neinn hátt ef það er ekki sérstaklega tekið fram í athugasemdum um verkefnið. Slíkt er gert í eftirvinnslu.

Það er nauðsynlegt að setja inn auðar línur til að merkja upphaf kafla, kaflaheiti og efnisgreinar.

Eina auða línu milli efnisgreina (enginn inndráttur á upphafi efnisgreina). Ef síða hefst á nýrri efnisgrein skal hafa fyrstu línuna auða.

Þrjár auðar línur á undan nýju kaflaheiti.

Eina auða línu milli kaflaheitis og annars texta sem tilheyrir upphafi kaflans (s.s. undirheiti, ljóð, tilvitnun o.s. frv.)

Tvö auð línubil á undan upphafi meginmáls í nýjum kafla.